Hið árlega Laugavegshlaup hófst í morgun þegar ríflega fimmhundruð hlauparar lögðu af stað frá Landmannalaugum. Árlega hleypur hópur fólks fimmtíu og fimm kílómetra yfir Laugaveginn á hálendi Íslands. Íþróttabandalag Reykjavíkur heldur Laugavegshlaupið en Silja Úlfarsdóttir upplýsingafulltrúi ÍBR, segir hlaupið hafa farið vel af stað þrátt fyrir slæma veðurspá.
Nú liggja fyrir úrslit í bæði karla og kvennaflokki. Arnar Pétursson vann í karlaflokki, Andrew Douglas hreppti annað sæti og Kris Brown í því þriðja. Andrea Kolbeinsdóttir vann kvennaflokkin en hún er eina konan sem komin er í mark í Húsadal í Þórsmörk. Íris Anna Skúladóttir er fremst kvenna sem eftir eiga að koma í mark og Elísabet Margeirsdóttir er næst á eftir henni. Elísabet er að hlaupa sitt þrettánda Laugavegshlaup.