Þó að veðrið hafi ekki alltaf verið með besta móti það sem af er sumri hvað varðar hitastig hefur það ekki látið ferðamenn stoppa sig við að staldra á Akureyri eða skoða sig um víða á Norðurlandi. Sumarið fór mjög vel á stað hvað varðar fjölda ferðamanna og þannig verður það væntanlega alveg fram á haust, allt fullt af ferðamönnum hér og þar um svæðið.
„Já, já, það hefur verður brjálað að gera. Við sjáum fram á sumar eins og var 2019 miðað við bókanir, já, það er bara allt vitlaust að gera. Asíumarkaðurinn er ekki komin enn þá en við erum að sjá mikið Bandaríkjamenn núna, Breta, Þýskaland, Frakka og Ítali koma aftur, þessar þjóðir, sem við þekkjum,“ segir Arnheiður.

Arnheiður segir að það verði mjög mikið um skemmtiferðaskip á nokkrum stöðum á Norðurlandi í allt sumar í nokkrum höfnum.
„Þau eru auðvitað að skila til okkar bæði fjölda ferðamanna, sem eru að kaupa sér þjónustu. Leiðsögn í ferðir, mat og minjagripi meðal annars.“
Hvað eru svona vinsælustu ferðamannastaðirnir á þessu svæði?
„Mývatn er auðvitað vinsælasti áfangastaðurinn á þessu svæði, Mývatn og allt, sem að því tengist. Dettifoss og Goðafoss eru líka mjög sterkir. Svo erum við að sjá Húsavík og Siglufjörð koma mjög sterkt inn og svo er mjög vaxandi áhugi á Norðurlandi vestra,“ segir Arnheiður.
Arnheiður segir að Markaðsstofa Norðurlands, sem hún stýrir sé að vinna með um 250 ferðaþjónustuaðilum og sveitarfélögunum á svæðinu og sú vinna gangi ljómandi vel og að hún gangi meðal annars út á að byggja upp heilsársferðaþjónustu.
Og þið komist ekkert í sumarfrí eða hvað? „Nei, nei, menn eru búnir að taka vorfrí og svo verður tekið haustfrí og allt það en það er bara eitthvað, sem ferðaþjónustan er vön,“ segir Arnheiður skælbrosandi með ferðasumarið 2022.
