Í tilkynningunni segir að kerfi viðskiptabanka hafi valdið því að greiðslur hafi áður verið aðgengilegar fyrir fyrsta hvers mánaðar.
„Viðskiptabankarnir hafa unnið að uppfærslu á greiðslukerfum sínum á síðustu árum. Í eldri greiðslukerfum voru stórar greiðsluskrár s.s. launagreiðslur ríkisins, keyrðar handvirkt utan hefðbundins álagstíma til að tryggja að greiðslur næðu örugglega að skila sér á réttum tíma. Þetta þýddi að í einhverjum tilfellum gerðu bankarnir þessar greiðslur aðgengilegar fyrir fyrsta dag mánaðar þótt greiðsludagur launa væri fyrsta virka dag næsta mánaðar. Á undanförnum árum hefur verklag þeirra verið að breytast og frá febrúar 2022 hafa laun alfarið verið greidd með nýju greiðslukerfi bankanna þar sem greiðslur berast viðtakendum fyrsta virka dag hvers mánaðar,“ segir á vef Fjársýslu ríkisins.
Tilkynninguna í heild sinni má sjá hér.
Fjölmargir ríkisstarfsmenn hafa sett sig í samband við Vísi vegna fyrra svars Helgu Jóhannesdóttur forstöðumanns mannauðs- og launasviðs ríkisins við fyrirspurn fréttastofu. Þeir hafi ávallt, nema einu sinni í maí á þessu ári, fengið laun sín greidd síðasta virka dag mánaðar þegar fyrsti dagur mánaðar lendir ekki á virkum degi.