„Já, ég er að skoða þetta. En það er vöntun á starfsfólki,“ segir Jóhann Issi í samtali við Vísi. Ég er bara með einn vagn í gangi og hef verið með í allt sumar. Á Fitjum við Njarðvík, sem gengur mjög vel: Fyrsta stopp þegar útlendingurinn kemur og það síðasta þegar hann fer.“
Jóhann Issi mun eiga fund með landeigendum eftir helgi og þá mun liggja fyrir hvort af verður. „Já, ég ætla að skoða það alvarlega að fara þarna upp eftir.“
Þjónusta ekki gróðastarfsemi
Eins og fram kom í viðtali við Guðrúnu Kristínu Einarsdóttur, formaður slysavarnadeildarinnar Þórkötlu í Grindavík, er hugur í Grindvíkingum og reyndar Suðurnesjamönnum almennt. Þeir sjá fram á að þetta muni auka mjög ferðamannastrauminn á þetta landsvæði, líkt og gerðist í tengslum við gosið í fyrra og þar með eflir þetta verslun og þjónustu. Og Jóhann Issi er reynslunnar smiður í þessum efnum. Hann setti upp söluvagn í fyrra á gosslóð og var með hann starfræktan í rúman mánuð.
„Um leið og þeir opnuðu bílastæðin þá fékk ég staðsetningu og var þarna páskana þegar þetta stóð sem hæst.“
Og var það ekki rífandi bisness?
„Þetta er þjónusta,“ svarar Jóhann Issi og ljóst að honum hugnast ekki að þetta framtak verði teiknað upp sem svo að hann ætli sér að hafa þá sem vilja skoða gosið að féþúfu.
„Ég var að hjálpa fólki að finna bílana sína þegar komið var myrkur. Fólk fór upp í björtu, eltu svo ljóslínuna til baka þegar komið var myrkur. Þau sáu ljósið á vagninum mínum. Og þá, allt í einu: Bíddu, hvar er bíllinn minn? Æsingurinn við að komast upp eftir var svo mikill. En þetta var mjög gaman.“
Gosáhugafólk svolgaði í sig gosið
Jóhann Issi segir að margir hafi rokið af stað af talsvert miklu fyrirhyggjuleysi. Og margir hverjir ekki vel nestaðir.
„Það var rosalega mikil sala í drykkjum. Einhver sem sagði við mig, af hverju hækkarðu ekki drykkina upp í þúsund kall? Íslenska leiðin. En mér þótti það heldur hart, að vera með drykkinn á 350 krónur á Fitjum en þúsund kall þarna. Ég hefði verið tekinn af lífi,“ segir Jóhann Issi.
Honum þykir skjóta skökku við að atvinnuleysi sé vel mælanlegt en ekki sé hægt að fá starfsfólk. Hann hefur nú auglýst eftir starfsfólki og áhugasamir geta haft samband við hann með því að senda póst á issi@issi.is