Bannið fær Brazell vegna ógnandi hegðunar í garð dómarans reynslumikla Erlends Eiríkssonar sem dæmdi leik Gróttu við HK í Kórnum 27. júlí.
Í úrskurðinum segir nánar tiltekið að framkoma þjálfara Gróttu hafi verið „alvarleg og vítaverð og falið í sér ógnandi tilburði gagnvart dómara leiksins“.
Samkvæmt frétt Fótbolta.net, sem byggir á frásögnum heimildamanns í Kórnum, þurfti Erlendur öryggisfylgd af staðnum vegna hegðunar Brazells. Þjálfarinn beið fyrir utan klefa dómarans eftir leik og þegar honum hafði verið vísað úr húsi beið hann áfram þar eftir því að Erlendur kæmi út.
Leikurinn skipti miklu máli varðandi baráttuna um að komast upp í Bestu deild en HK fór með 2-1 sigur af hólmi. Tveir úr liðsstjórn Gróttu fengu að líta rauða spjaldið í leiknum; aðstoðarþjálfarinn Halldór Kristján Baldursson og Ástráður Leó Birgisson. Þeir fengu eins leiks bann hvor.
Grótta fékk 100.000 króna sekt vegna hegðunar Brazells og hafði áður fengið 40.000 króna sekt vegna brottvísana Halldórs og Ástráðs.
Næsti leikur Gróttu er í kvöld þegar liðið sækir KV heim í grannaslag en Brazell missir einnig af leikjum við Aftureldingu og Þrótt Vogum.