Drífa starfaði með flestum formönnunum í tíu ár, fyrst sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og síðustu fjögur ár sem forseti ASÍ.
„Drífa hefur verið róttæk, sýnileg og fylgt áherslum Alþýðusambands Íslands mjög vel eftir og verið hreyfingunni til sóma á allan hátt. Hún er ósérhlífin, vinnusöm og með ótrúlegum styrk hefur hún átt stóran þátt í brjóta ýmsa múra sem hefur skilað sér meðal annars í bættum lífskjörum, einkum þeirra sem minnst hafa, auknu jafnrétti og betra samfélagi,“ segir í yfirlýsingunni.
Enginn eigi að upplifa aðstæður Drífu
Formennirnir segjast jafnframt harma þær aðstæður sem urðu til þess að Drífa sá sig knúna til afsagnar. Hún sagði í gær að samskipti við formenn VR og Eflingar hafi gert störf hennar á köflum óbærileg. Hún hafi ekki getað ímyndað sér að sitja áfram við þessar aðstæður.
„Það á enginn að þurfa að upplifa sig við þannig aðstæður á sínum vinnustað. Verkalýðshreyfingin á að vera fyrirmyndarvinnustaður og verður að koma í veg fyrir að starfsfólk hennar upplifi sig eins og Drífa gerði,“ segir í yfirlýsingunni.
Undir yfirlýsinguna rita Arnar G. Hjaltalín, Björn Snæbjörnsson, Eyþór Þ. Árnason, Finnbogi Sveinbjörnsson, Guðmundur Finnbogason, Guðrún Elín Pálsdóttir, Halldóra S. Sveinsdóttir, Hrund Karlsdóttir, Magnús S. Magnússon, Vignir S. Maríasson og Þórarinn Sverrisson.