Þeirra á meðal var Lea, en dóttir hennar Lovísa er tæplega þriggja ára og hefur ekki fengið leikskólapláss.
„Hún hefur komist inn á leikskóla þrisvar samkvæmt kerfinu en þetta er alltaf með fyrirvara. Þetta er eins og að kaupa íbúð með fyrirvara um fjármögnun, með fyrirvara um mönnun, fyrirvara um að framkvæmdum ljúki en þessir fyrirvarar ganga ekkert eftir og hún hefur ekki komist inn á leikskóla eins og staðan er núna þó hún sé með pláss í kerfinu,“ sagði Lea Dominique.
„Algjör skrípaleikur“
Ingi Bekk hefur þurft að hafna vinnu til þess að sinna barni sínu sem ekki fær pláss hjá borginni.
„Staðan er bara svona, hún er hræðileg. Það er ekkert annað hægt að segja. Þetta er algjör skrípaleikur.“
„Við fáum engin svör og hvergi pláss og sjáum fram á tekjulausan vetur og jafnvel ár, við vitum ekkert hvað verður,“ sagði Bergrún Helgadóttir.

„Ég skil hreinlega ekki hvað Reykjavíkurborg er að hugsa því þetta tekur bara annað okkar úr umferð með þeim afleiðingum sem það getur haft. Við erum með tvö önnur börn sem við þurfum að sjá fyrir þannig við þurfum bæði að vera í vinnu,“ sögðu Ingi Bekk og Aðalbjörg Sigurðardóttir.
„Við viljum svör, ekki afsakanir nú er kominn tími á það,“ sagði Gunnhildur Ólafsdóttir.
„Ég er búin að borga barnapíur og núna veit ég ekkert hvernig ég tækla næstu viku,“ sagði Lea.
„Við erum bara í óvissunni og sjáum ekki fyrir okkur að komast í vinnu á áætluðum tíma,“ sagði Gunnhildur.
Hver eru skilaboð til borgaryfirvalda?
„Hysja upp um sig buxurnar og leysa þessi mál. Við og fleiri getum ekki staðið í þessu eins og þetta er núna,“ sagði Ingi.