Ísak Finnbogason var að streyma drónaskotum af eldgosinu í beinni útsendingu á Youtube í gærkvöldi, þegar hann sá tvo aðila sem hann telur vera ferðamenn standa á nýju hrauni, skammt frá katlinum í Meradölum.
Einhverjir af hátt í þúsund áhorfenda Ísaks bentu honum á fólkið og flaug hann drónanum nær þeim til að ganga úr skugga um að það væri rétt. Þá sá hann fólkið vera komið langt út á nýja hraunið og standa við smærri gíginn.
Ísak segist í samtali við Vísi ekki hafa ætlað að trúa því að fólkið væri í alvörunni að hætta sér þarna út. Hann hafi ákveðið að reyna að nota drónann til að gera þeim ljóst að þau væru í hættu. Hann segist sjálfur hafa skömmu áður séð hraun skvettast á svæðið þar sem þau stóðu.
Hann segir drónann vera appelsínugulan á lit og mögulegt sé að fólkið hafi talið hann á vegum björgunarsveita eða opinberra aðila og þau hafi farið af hrauninu.
Hægt er að sjá á myndbandinu hér að neðan hve nærri eldgosinu ferðamennirnir voru.
Sambærilegt atvik kom upp í fyrra þegar maður gekk á nýju hrauni til að ná betri myndum af hraunflæðinu. Þá vöruðu almannavarnir við því að fólk væri að fara inn á skilgreint hættusvæði við gosstöðvarnar.
Björgunarsveitarmenn og lögregluþjónar vöruðu fólk ítrekað við því í fyrra að fara ekki út á hraunið, enda geti það verið stórhættulegt. Fjölmargir gerðu það þó samt.