Hitabylgja hefur riðið yfir Evrópu í sumar og meðal afleiðinga hennar eru gróðureldar, vatnsskortur og miklir þurrkar. Þegar vatnsborð Valdecanas-vatnsbóls á Spáni lækkaði í síðustu viku komu forsögulegu bautasteinarnir Dolmen de Guadalperal, betur þekktir sem „spænska Stonehenge,“ aftur í ljós en þeir eru frá um 5000 fyrir Krist.

Þýski fornleifafræðingurinn Hugo Obermeier uppgötvaði bautasteinana, sem samanstanda af um 150 steinum, fyrst árið 1926. En þegar einræðisherrann Francisco Franco lét búa til Valdecanas-vatnsból hurfu steinarnir undir vatn og hafa síðan þá aðeins sést fjórum sinnum.
Vegna þurrkana núna sjást steinarnir skýrt og skilmerkilega og hefur fólk kallað eftir því að þeir verði fluttir á safn áður en þeir hverfa aftur undir vatn.
Þýsk herskip og tundurdufl fundist í ám
Hið merka fljót Dóná sem flæðir í gegnum Evrópu er sömuleiðis ekki svipur með sjón vegna þurrkanna sem tröllríða Evrópu. Vegna þess hafa meira en tuttugu flök þýskra herskipa sem sukku í seinni heimsstyrjöldinni komið í ljós nálægt serbneska bænum Prahovo.
Skipsflökin eru meðal meira en hundruð þýskra herskipa sem sukku í ánni árið 1944 þegar sjóherinn flúði undan sovéska hernum. Skipsflökin hafa í gegnum tíðina hamlað umferð skipa þegar vatnsborð árinnar er lágt. Hér fyrir neðan má sjá myndband af skipunum.
Low water levels on river Danube have exposed more than 20 German warships sunk during World War Two in Prahovo, Serbia https://t.co/7GxRuqN3di pic.twitter.com/2ODz9VWyN8
— Reuters (@Reuters) August 19, 2022
Ítalía hefur lýst yfir neyðarástandi vegna þurrka á svæðum við ánna Pó, lengstu á landsins, sem hefur orðið fyrir miklum áhrifum vegna þurrkana.
Í lok júlí kom í ljós 450 kílóa tundurdufl sem hafði verið á kafi í ánni. Um þrjú þúsund manns sem búa í nágrenni við norður-ítalska þorpið Borgo Virgilio var þá gert að yfirgefa heimili sín á meðan sprengjusérfræðingar gerðu sprengjuna óvirka.
Margra alda gamlar Búddastyttur
Sumarið í Kína hefur verið það þurrasta og heitasta í rúm sextíu ár og hafa ár, uppistöðulón og kornuppskera liðið fyrir þurrkinn. Kínversk yfirvöld hafa svo miklar áhyggjur af uppskeru landsins að þau hyggjast sá efnum í ský til að fá þau til að rigna.

Vatnsborð Yangtze-ár, lengsta fljóts Kína, hefur lækkað töluvert og í síðustu viku kom í ljós eyja sem hafði verið á kafi í ánni við borgina Chonqing.
Í kjölfarið fundust á eyjunni þrjár Búddastyttur sem talið er að séu um sex hundruð ára gamlar, að sögn ríkismiðilsins Xinhua.