Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.
„Tollurinn fann lyfið, sem barst hingað í póstsendingu, en um er að ræða 80 mg töflur. Í framhaldinu voru tveir menn handteknir í aðgerðum lögreglu vegna málsins og annar þeirra úrskurðaður í gæsluvarðhald, eins og áður sagði, en hinn er laus úr haldi.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stödd,“ segir í tilkynningunni.
Lyfjatengdum andlátum virðist fara fjölgandi, samkvæmt nýbirtum tölum Landlæknisembættisins. Þau voru 30 árið 2017 en 46 í fyrra, 24 á fyrri helmingi ársins og 22 á þeim seinni.
Algengasta sterka verkjalyfið sem finnst í fólki sem hefur látist úr eitrun síðustu fimm ár er ópíóðinn oxýkódon – og þeim tilfellum hefur fjölgað. Þau voru þrjú árið 2017 en voru fimmtán, fimmfalt fleiri, á síðasta ári.
Allur gangur virðist á því hvernig fólk útvegi sér lyfin, sagði Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
„Einhverjir hafa fengið ávísuð lyf og orðið háð þeim en aðrir kaupa lyfin á svörtum markaði. Og svo er talsvert um að þessi lyf séu flutt inn.“
Fjallað var um oxycontin-faraldurinn í Kompás á Stöð 2 fyrr á árinu.