Klukkan 12.28 þriðjudaginn 23. ágúst varð árekstur rafmagnshlaupahjóls og bifreiðar á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar. Eins og segir í tilkynningu lögreglu, var hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, fluttur á slysadeild í kjölfarið.
Sú sem rætt er um í tilkynningunni er Erla Talía Einarsdóttir, sextán ára stúlka, nýbyrjuð í menntaskóla, sem var á leið heim í hádegishléi. Rætt er við hana í viðtalinu hér að ofan.
„Ég var á hlaupahjóli að keyra, alveg að koma á Miklubrautina, og horfi yfir, sé að einhver er nýbúinn að fara yfir, sá grænt ljós en ég er nokkuð viss um að ég hafi séð það hinum megin. En ég pældi ekki mikið í því, ég bara fór af stað í botni. Og síðan þegar ég er á seinustu akreininni fyrir eyjuna heyrði ég flaut og fann svakalegt högg sem ég get ekki útskýrt. Það var einhvern veginn alls staðar. Ég lokaði augunum, opnaði augun, þá var ég upp í loftinu á hvolfi, svo lokaði ég þeim og opnaði þau aftur og þá lá ég á götunni. Það var rosalega mikill verkur hægra megin við mig,“ segir Erla í samtali við fréttastofu.

Erla mjaðmabrotnaði við höggið og verður frá í nokkra mánuði, en að öðru leyti er hún talin hafa sloppið mjög vel.
Vill umbætur við gatnamótin
Eins og skýrslan sem vísað var til að ofan sýnir er þetta alls ekki eina rafmagnshlaupahjólaslysið sem varð í þessari viku. Samkvæmt samantekt fréttastofu hafa fleiri en fjörutíu alvarleg rafmagnshlaupahjólaslys komið á borð lögreglu í sumar og þar bætast við þau sem ekki rata á borð lögreglu. Slysin eru orðin verulegur hluti af umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu.
Sandra Sigurgeirsdóttir, móðir Erlu, vildi helst að öllum væri skylt að bera hjálma á rafhlaupahjólum, en bendir jafnframt á að vitað sé að gatnamótin sem um ræðir séu stórhættuleg.

„Ég skil ekki hvernig er hægt að velja 2015 hættulegustu gatnamót bla og svo bara hmm, gera ekki neitt. Mér finnst það svolítið skrýtið, af hverju er ekki búið að gera eitthvað? Það er alls konar hægt að gera en það þarf bara að setja peninginn í það,“ segir Sandra Sigurgeirsdóttir.