Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra greindi frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að frumvarp hans til breytinga á útlendingalögum kæmi fram á fyrstu dögum þings sem kemur saman á þriðjudag í næstu viku. Frumvarpið náði ekki fram að ganga á síðasta vorþingi og verður nú lagt fram í fimmta sinn.
„Það er búið að vinna aðeins í því í sumar að skoða umsagnir eftir þá ítarlegu málsmeðferð sem málið fékk í vor. Ég útiloka ekki að það séu einhverjar breytingar á því en meginefni frumvarpsins er óbreytt og tilgangur þess og markmið,“ segir Jón.
Sem væri að skýra leikreglurnar og samræma vinnubrögðin að hluta við það sem þekktist í nágrannalöndum og samstarfsríkjum. Breytingarnar væru mikilvægar.

„Við sjáum auðvitað fordæmalausa fjölgun á flóttamönnum til Íslands. Það er ekki tilviljun,“ sagði Jón og vildi meina að kerfið væri misnotað af fólki sem þegar hefði fengið vernd annars staðar þar sem það gæti fengið gefin út nauðsynleg skilríki. Með þeim gæti það síðan sótt um vinnu og dvalarleyfi annars staðar í Evrópu án þess að koma hingað á forsendum hælisleitar.
Jón segist mjög fylgjandi því að auðvelda fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins að koma hingað til að vinna, enda skortur á vinnuafli. Það væri aftur á móti á hendi félagsmálaráðherra að koma fram með frumvarp um þá hlið mála.
„Já, ég tel reyndar að það sé mjög mikilvægt. Tek þar undir með mörgum í atvinnulífinu um mikilvægi þess að geta sótt sér fjölbreytta reynslu og þekkingu frá öðrum löndum í formi starfsfólks sem hingað getur komið og tekið hér þátt í lífi og starfi,“ segir dómsmálaráðherra.

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins tekur heilshugar undir þetta. Á næstu árum og áratugum væri þörf á verulegri fjölgun erlendra sérfræðinga og almenns vinnuafls.
„Við þurfum að tryggja, að við í raun leggjum út rauðan dregil fyrir fólk sem hingað vill koma og byggja upp gott líf til framtíðar. Það er okkar hagur líka. Þess vegna fagna ég þessum ummælum mjög.“
Er flókið í dag að fá hingað fólk til vinnu utan Evrópska efnahagssvæðisins?
„Það er allt of flókið og allt of tafsamt. Við höfum vitað af þessum vanda lengi og stjórnmálin líka. En orð eru til alls fyrst. Ég ætla að leyfa dómsmálaráðherra að njóta vafans að nú verði gerð gangskör að því að laga þetta í eitt skipti fyrir öll,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson.