Ofvirkur og félagar báru Viðstöðu ofurliði

Snorri Rafn Hallsson skrifar
ofvirkur

Leikur Ármann og Viðstöðu fór fram í hinu fjöruga Mirage. Ármann hafði betur í hnífalotunni og kaus að byrja í vörn (Counter-terrorists).

Blazter bjargaði Viðstöðu fyrir horn í skammbyssulotunni og féll sú næsta einnig með þeim. Ármann jafnaði þegar Ofvirkur komst á vappann og lét hann riffilinn svo sannarlega telja í 5 lotu runu. Ofvirkur og Lambo léku listilega með hvorum öðrum á meðan Vargur fór sem eldur um kortið og tók út máttlausa leikmenn Viðstöðu.

Staða í hálfleik: Ármann 10 – 5 Viðstöðu

Ármann fór vel af stað í upphafi síðar hálfleiks, krækti í skammbyssulotuna og næstu tvær þar á eftir til að komast í stöðuna 13–5. Glæsileg flöss frá Ofvirkum sköpuðu gott pláss á kortinu fyrir Ármann til að athafna sig og koma sprengjunni fyrir. Stefnuleysi og óákveðni einkenndi hins vegar sóknarleik Ármanns og fljótlega fór að halla undan fæti.

Blazter hafði verið atkvæðamesti leikmaður Viðstöðu í fyrri hálfleik og hélt uppteknum hætti í þeim síðari. Alle komst einnig í gang á rifflinum með Mozar7 sér við hlið. Lið Viðstöðu vann heilar tíu lotur í röð með því að sækja opnanir í upphafi lota og ná þannig stjórn á kortinu.

Vargur og Lambo björguðu Ármanni hins vegar á síðustu stundu úr klóm Viðstöðu og sendu leikinn í framlengingu.

Staða eftir venjulegan leiktíma: Ármann 15 – 15 Viðstöðu

Liðin skiptust á lotum í upphafi framlengingar en Hyper og Ofvirkur kræktu í ólíklegustu fellur til að koma Ármanni loks yfir á ný og við það fann liðið kraftinn til að sigla sigrinum heim. Hundzi rak smiðshöggið á leikinn þegar hann felldi Klassy í þrítugustu og fimmtu lotu.

Lokastaða: Ármann 19 – 16 Viðstöðu

Næstu leikir liðanna:

  • Viðstöðu – Dusty, þriðjudaginn 20/9, kl 19:30
  • Ármann – Breiðablik, fimmtudaginn 22/9, kl 20:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir