Berdreymi segir frá Adda, sem er unglingsstrákur í Reykjavík, og er alinn upp af móður með skyggnigáfu. Einn daginn ákveður Addi að taka eineltisfórnarlamb undir sinn verndarvæng og inn í vinahóp slagsmálahunda. Strákarnir í hópnum leika sér að valdbeitingu og ofbeldi en kynnast einnig djúpri vináttu. Myndin er önnur kvikmynd Guðmundar Arnars í fullri lengd á eftir hinni margverðlaunuðu Hjartasteinn.
Í rökstuðningi dómnefndar segir að einstök frammistaða og hugrekki ungra leikara eigi sérstakt lof skilið fyrir stóran þátt sinn í áhrifamætti verksins. „Tónn, andi og tilfinning frásagnarinnar nýtir möguleika formsins á eftirtektarverðan hátt sem skilar sér í hrárri og sterkri kvikmynda upplifun,“ segir þar einnig.
Berdreymi var heimsfrumsýnd á Berlinale í febrúar og hlaut þar einnig verðlaun sem besta evrópska kvikmyndin í sínum flokki frá Samtök Evrópska Kvikmyndahúsa.

Guðmundur Arnar skrifaði handritið og með helstu hlutverk fara Birgir Dagur Bjarkason, Áskell Einar Pálmason, Viktor Benóný Benediktsson, og Snorri Rafn Frímannsson. Einnig spila þau Aníta Briem, Ólafur Darri Ólafsson og Ísgerður Gunnarsdóttir stór hlutverk á skjánum.