Í ákæru kom fram að maðurinn hafi ítrekað slegið starfsmanninn í andlit, ýmist með flötum eða krepptum hnefa.
Maðurinn játaði skýlaust brot sín og var það virt til mildunar refsingar. Sagðist maðurinn iðrast verknaðarins og segir hegðun sína á verknaðarstundu hafa litast af fíknievanda sem hann glímdi við. Þá hafi hann ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot.
„Á móti kemur að ákærði réðst af tilefnislausu á brotaþola sem var við störf og gaf honum réttmæt fyrirmæli,“ segir í dómnum þó að ekki sé tekið fram hvaða fyrirmæli hafi verið um að ræða.
Í dómsorðum kemur fram að fresta skuli fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að loknum tveimur árum, haldi maðurinn almennt skilorð.