Atvikið átti sér stað í gær. Í frétt á vef hollenska dagblaðsins De Telegraaf kemur fram að ástæðan hafi verið þingræða hins umdeilda leiðtoga hægriflokksins FvD, Thierry Baudeut.
Á þinginu var verið að ræða fjárlög næsta árs. Ræða Baudeut snerti hins vegar takmarkað á fjárlögum næsta árs. Þess í stað beindi hann spjótum sínum að Sigrid Kaag, fjármálaráðherra og varaforsætisráðherra Hollands.
Í ræðu Baudet ræddi hann um St. Anthony skóla Oxford-háskólans í Bretlandi, sem væri að hans mati „ekkert nema þjálfunarbúðir fyrir vestrænar njósnastofnanir.“ Þar kæmi hin „heimsvaldasinnaða elíta“ saman sem „vilji skipuleggja líf allra hinna bak við tjöldin.“

Að þessu loknu minntist Baudet að Kaag hafi einmitt stundað nám við þennan tiltekna skóla.
Þetta vakti ekki mikla lukku á meðal þingmanna. Samkvæmt frétt De Telegraaf reyndi Kaag þá að blanda sér í umræðuna, án árangurs. Vera Bergkamp, forseti þingsins, stöðvaði þá ræðu Baudet og sagði honum að umræða um menntun Kaag ætti ekki erindi við umræðu um fjárlög næsta árs.
Það hélt þó ekki aftur af Baudet sem hélt áfram ræðu sinni. Við það virðist meðlimum ríkisstjórnar Hollands hafa ofboðið og yfirgáfu þeir salinn í mótmælaskyni, einn af öðrum.
Bergkamp sleit þingfundi eftir að ríkisstjórnin yfirgaf salinn. Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sneri einn aftur til þess að segja Baudet að með ræðunni hafi hann farið yfir strikið.
Í viðtali við De Telegraaf segir Kaag að með ræðunni hafi Baudet farið langt yfir strikið yfir hvað gæti talist ásættanlegt í pólitískri umræðu.