Skipið er stærsta fjárfestingarverkefni Slysavarnarfélagsins Landsbjargar til þessa en þetta er fyrsta skipið af þremur sem Landsbjörg hefur gengið frá kaupum á. 142,5 milljóna króna styrkur frá Sjóvá fer í að smíða skipin þrjú.
Þór sigldi frá Landeyjarhöfn og var tekið á móti því með viðhöfn þegar það sigldi í heimahöfn í Eyjum að viðstöddu fjölmenni. Örn Smárason, verkefnastjóri sjóbjörgunar hjá Landsbjörgu, segir að mikil eftirvænting hafi ríkt fyrir komu skipsins í Vestmannaeyjum og bætir við á léttu nótunum að fjöldi Eyjamanna hafi boðið sig fram til að sigla skipinu til Eyja.

Með skipunum þremur styttist viðbragðstími Lansbjargar á sjó um helming í flestum tilfellum en þau eru einnig hönnuð með það í huga að geta aðstoðað við björgunarverkefni á landi, svo sem með því að tryggja fjarskipti á fáförnum stöðum ef þörf krefur.