Þegar 99,9 prósent atkvæða höfðu verið talin var Luiz Inácio Lula da Silva, leiðtogi vinstrisins og fyrrverandi forseti Brasilíu, með 48,4 prósent atkvæða samkvæmt AP fréttaveitunni en Jair Bolsonaro Brasilíuforseti með 43,2 prósent atkvæða. Níu til viðbótar voru í framboði en hlutu öll töluvert færri atkvæði.

Niðurstaðan kom nokkuð á óvart en kannanir fyrir kosningarnar um helgina gerðu ráð fyrir að Lula nyti talsvert meiri stuðnings en Bolsonaro, samkvæmt einni könnun var Lula með fjórtán prósentustiga forskot, langt frá þeim fimm prósentustiga mun sem raunin var. Bolsonaro virðist hafa staðið sig betur en við var búist í suðausturhluta landsins, þar á meðal í Sao Paulo og Rio de Janeiro.
Bolsonaro sagði við blaðamenn eftir að úrslitin komu í ljós að hann skildi að fólkið vildi breytingar, en að sumar breytingar gætu haft slæm áhrif. Lula sagði aftur á móti að niðurstöðurnar væru aðeins til þess að hann myndi taka örlítið seinna við en ella.
Kjósendur hafa nú fjórar vikur til að ákveða hver verði næsti forseti Brasilíu.

Óhætt er að segja að Bolsonaro hafi verið umdeildur frá því að hann tók við embætti forseta í janúar 2019 en hann hefur einna helst verið gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við Covid heimsfaraldrinum auk þess sem hann hefur gert lítið úr lýðræðislegum stofnunum og æst fólk upp með orðræðu sinni.
Lula er aftur á móti einna þekktastur fyrir að koma á fót umfangsmiklu kerfi félagslegrar þjónustu meðan hann gegndi embætti forseta frá 2003 til 2010. Hann er þó einnig umdeildur vegna hneykslismála flokks síns og var hann sjálfur dæmdur í fangelsi fyrir spillingu, þó sá dómur hafi að lokum verið ógildur.
Bolsonaro og Lula skiptust á að skjóta á hvorn annan fyrir kosningarnar en Bolsonaro kallaði Lula þjóf á meðan Lula sagði Bolsonaro brjálæðing.
Brazil's leftist candidate Lula da Silva won the first round of the presidential election with 48.4% of the vote (just shy of the 50% he needed to avoid a runoff)
— Ben Norton (@BenjaminNorton) October 3, 2022
Lula got over 6 million more votes than far-right incumbent Bolsonaro, at 43.2%
They go to round two on October 30 pic.twitter.com/e3Ta9tuGtl