Frétt Stöðvar 2:
Þýsk ísbrjóturinn og rannsóknarskipið Pólstjarnan var meðal annars látið reka með norðurskautsísnum í MOSAIC verkefninu veturinn 2019 til 2020 á meðan hundruð vísindamanna frá tuttugu löndum sinntu rannsóknum.

„Fyrst tókum við eftir því að rekið var mun hraðara en fyrir áratugum. Við fórum í raun í kjölfar leiðangurs Fridjofs Nansens fyrir 130 árum sem hann fór á tréskipi. Hann þurfti þrjú ár til að reka í gegnum norðurskautsísinn en það tók okkur aðeins eitt ár. Það er vegna þess að ísinn er miklu þynnri, miklu yngri, meira hreifanlegur og rekur hraðar," segir Dr Markus Rex prófessor í loftslagseðlisfræði við Podsdam háskóla sem tók þátt í skipulaginu MOSAIC leiðangursins og tók einnig þátt í honum.

Þessar afleiðingar loftslagsbreytinganna væru ekki góðar fréttir fyrir hvítabirni sem öfluðu sér lífsviðurværis á ísnum. Enn væri hægt að snúa þróuninni við en mannkynið hefði skamman tíma til þess. Leiðangursfólk á Pólstjörnunni hefði átti marga fundi með ísbjörnum.

„Á þessu ári fengum við um sextíu heimsóknir frá hvítabjörnum alla leið í rannsóknarbúðir okkar. Það var stöðug áskorun að halda öllum öruggum á ísnum á meðan þessi dýr voru í nágrenninu," segir Rex.
Vísindamenn hafi oft átt fótum sínum fjör að launa undan hraðskreiðum ísbjörnum
„Margoft. Við urðum mjög oft að yfirgefa ísinn vegna þess að hvítabirnir nálguðust. Það kom að því að við þróuðum ferla þannig að við gætum unnið öðrum meginn við skipið á meðan birnir voru á veiðum hinum meginn við það," segir Rex.

Hvítabjarnastofninn á mið-norðurskautshafinu væri enn vel haldinn.
„Þarna er mjög heilbrigt samfélag hvítabjarna. Við sáum mjög vel nærð dýr. Einnig fjölskyldur hvítabjarna með húna sem fæddust vorið sem leiðangurinn stóð yfir," segir Rex.
Björninn kunni best við sig á þunnum ís sem auðveldi þeim selveiðar. En nú þynnist ísinn hratt og björninn leiti því norðar en áður.
„Og þynning er aðeins fyrsta skrefið að því að ísinn hverfi. Þannig að framtíðin lítur ekki vel út fyrir hvítabirnina," segir Markus Rex.