Tveir voru dæmdir í tólf ára fangelsi í Saltdreifaramálinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Málinu hefur verið lýst sem einu umfangsmesta fíkniefnamáli Íslandssögunnar.
Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur 12 ára refsiramminn einu sinni áður verið fullnýttur í fíkniefnamáli. Það var árið 2002 þegar Austurríkismaðurinn Kurt Fellner var dæmdur í 12 ára fangelsi í héraðsdómi fyrir innflutning á næstum 70 þúsund e-töflum.
Dómurinn yfir Fellner var þó mildaður í níu ár - og sú virðist einmitt almennt reglan í þungum fíkniefnadómum síðustu ára. Saltdreifaradómum verður áfryjað - og Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur telur að hann verði mildaður í Landsrétti.
„Það kæmi mér ekki á óvart. Mér þykir þó ekki líklegt að aðalhöfuðpaurarnir, að þeir dómar verði mildaðir að einhverju ráði.“

Málið er sögulegt að umfangi og þá er einmitt rannsókn nýlokið í öðru máli, stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar. Þetta eru mál sem opnað hafa markaðinn fyrir aðra og ljóst er að lögregla hefur áhyggjur; í nýbirtri skýrslu ríkislögreglustjóra kemur fram mikil aukning á tilraunum til fíkniefnainnflutnings um Keflavíkurflugvöll. Það sem af er þessu ári eru skráð 107 brot en voru 63 allt árið í fyrra.
Væri ef til vill tilefni til að rýmka refsirammann í ljósi þessa?
„Dómar í fíkniefnamálum á Íslandi eru hlutfallslega þungir í samnburði við aðra brotaflokka og í samanburði við það sem er að gerast í öðrum löndum. Og það er ekki endilega skýrt að þynging refsinga muni leiða til þess að við sjáum færri brot. Þannig að, ekki endilega,“ segir Margrét.