Í fréttum Stöðvar 2 og þættinum Um land allt var fjallað um Hóladómkirkju, sem er elsta steinkirkja landsins, nærri 260 ára gömul.

Kannski mætti telja hana miklu eldri. Þegar Solveig Lára sýndi okkur kirkjuna í þættinum Um land allt sagði hún okkur að elstu steinarnir í henni væru úr múr ófullgerðrar kirkju sem norski biskupinn Auðunn rauði byrjaði að reisa á fjórtándu öld en hann var biskup á Hólum á árunum 1313 til 1322.
„Þannig að við getum sagt að margir steinar í þessari kirkju eru einmitt frá tímum Auðuns rauða. Og við erum nú mjög heiðarleg og segjum að kirkjan sé bara frá 1763. En ef þetta væri kannski dómkirkja einhversstaðar á Norðurlöndunum eða í Evrópu þá myndu þeir segja að kirkjan væri frá þrettánhundruð og eitthvað,“ segir Solveig Lára.

Hin fimmhundruð ára gamla altaristafla, Hólabríkin, segir Solveig að sé mesti dýrgripur kirkjunnar enda hafi sjálfur Jón Arason biskup, sá sem hálshöggvinn var í Skálholti, keypt hana í Hollandi í kringum árið 1520.
Kirkjan geymir enn eldri muni en alabastursbrík frá árinu 1470, komin frá Nottingham í Englandi, hefur lengi verið talin elsti gripur hennar.
„En núna höfum við áttað okkur á því að það er möguleiki á því að það séu ýmsir hlutir hér inni sem eru jafnvel eldri og það er skírnarfonturinn,“ segir Solveig.

Núna hallast menn að því að ártalið 1674 á fontinum vísi ekki til aldurs fontsins heldur til þess árs þegar hann var skreyttur með útskurði. Solveig segir að í Noregi séu til mjög svipaðir skírnarfontar frá tólftu, þrettándu og fjórtándu öld og er kenningin sú að einhver norsku biskupanna, sem þá voru á Hólum, hafi komið með fontinn. Hann geti því verið fjögurhundruð árum eldri en til þessa hefur verið talið.
„Ég aðhyllist þessa kenningu vegna þess að mér finnst hún skemmtileg. Og gaman að vita það að þetta gæti verið svona mikill forngripur,“ segir Solveig Lára Guðmundsdóttir, fráfarandi vígslubiskup á Hólum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá lengri umfjöllun í þættinum Um land allt:
Þátturinn um Hóla verður endursýndur á Stöð 2 næstkomandi sunnudag klukkan 16. Einnig má nálgast hann á streymisveitunni Stöð 2+.