Fjölgun íbúa áhöfuðborgarsvæðinu, þétting byggðar og um tvær milljónir ferðamanna á ári hefur kallað á nýjar lausnir í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Umferðamannvirki rúma ekki aukna umferð og loftslagsbreytingarnar kalla á nýjar lausnir.
Úr kvöldfréttum Stöðvar 2:
Þess vegna kannski á nú að setja um 120 milljarða í samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu borgarlínu og annarra samgönguinnviða. En almættið hjálpi þeim sem minnist á neðanjarðarlestarkerfi, sú umræða er yfirleitt fljótafgreidd svona:
Pawel Bartoszek varaformaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar rauf loks þagnarmúrinn með grein í Fréttablaðinu nýlega. Þar lýsir hann upplifun sinni af nýju neðanjarðarlestarkerfi í ítölsku borginni Brescia þar sem búa um 200 þúsund manns.

„Þeir byggðu sitt kerfi sem er tæpir fjórtán kílómetrar með sautján stöðvum. Þetta er borg sem er svipuð að stærð og mannfjölda og höfuðborgarsvæðið. Þannig að þetta er orðið eitthvað sem er algerlega raunhæft,“ segir Pawel.

Vegalengdin sem Pawel nefnir er svipuð og er á milli Hörpu í miðborginni og Egilshallar í Grafarvogi. Hann segir nýja neðanjarðarlestarkerfið í Brescia hafa kostað um 130 milljarða króna.

„Til samanburðar er heildarkostnaður samgöngusáttmálans 120 milljarðar. Sundabraut í sundagöngum yrði um það bil 60 milljarðar. Þannig að aftur; þetta yrðu dýrar lausnir en þetta er ekki eitthvað sem við höfum ekki séð þegar kemur að samgöngu umræðum á Íslandi,“segir Pawel.
Kostirnir við neðanjarðarlestarkerfi væru margir, til dæmis vegna veðráttunnar.
„Þá væri mikill fengur að geta labbað niður í stöð og tekið síðan hlýja lest á áfangastað. Við erum með aðgang að orku sem er auðvelt að nýta í lestir. Þetta er bara leyst vandamál hvernig lestir eru keyrðar áfram á rafmagni. Ekki jafn leyst vandamál þegar kemur að strætisvögnum eða bílum,“ segir Pawel.
Þetta kæmi ekki í stað borgarlínu en hugsa þyrfti lengra fram í tímann.
„Því hugmynd sem var fáránleg fyrir 50 árum er ekki lengur fáránleg. Hún er dýr en hún er djörf,“ segir Pawel Bartoszek varaborgarfulltrúi Viðreisnar.