Markmið verðlaunanna er að beina kastljósinu að metnaðarfullu skólastarfi sem unnið er með börnum og ungmennum. Upphaf verðlaunanna má rekja til forsetatíðar Ólafs Ragnars Grímssonar. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2005 en afhendingu þeirra var hætt í kjölfar efnahagshrunsins og þau svo endurvakin árið 2020.
Að baki verðlaununum standa hinir ýmsu hagsmunaaðilar íslenska menntageirans auk forsetaembættisins, mennta- og barnamálaráðuneytisins og innviðaráðuneytisins.
Verðlaun voru veitt í fjórum flokkum auk hvatningarverðlauna.
Leikskólinn Rauðhóll hlaut verðlaun í flokki framúrskarandi skólastarfs og menntaumbóta fyrir fagmennsku og gæði í leikskólastarfi og öflugt þróunarstarf.
Verkefni innan Grunnskóla Snæfellsbæjar kallað Átthagafræði hlaut verðlaun í flokki framúrskarandi þróunarverkefna. Verkefnið beinist að því að efla jákvæð og virk tengsl skóla og samfélags, þekkingu nemenda á heimabyggð sinni og auka fjölbreytni í námi.
Tækniskólinn hlaut verðlaun í flokki framúrskarandi iðn- eða verkmenntunar fyrir átaksverkefnið #kvennastarf, samstarfsverkefni skólans og annarra iðn- og verkmenntaskóla. Verkefnið gengur út á að benda á þann kynjamun sem hefur viðgengist í sumum starfsstéttum og vekja athygli á störfum í iðn-, tækni- og verkgreinum.
Elísabet Ragnarsdóttir, leikskólakennari og aðstoðarleikskólastjóri við leikskólann Heiðarborg í Reykjavík hlaut verðlaun í flokki framúrskarandi kennara fyrir einstaka fagmennsku við leikskólakennslu.
Hvatningarverðlaunin hlaut Menntaskóli Borgarfjarðar fyrir framsækna endurskoðun á námskrá með það að leiðarljósi að undirbúa nemendur sem best fyrir áskoranir í lífi og starfi.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Gerður Kristný, rithöfundur og skáld og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins afhentu verðlaunin ásamt forseta.
Nánari upplýsingar um verðlaunin má sjá hér eða á forseti.is.