Árlegur fundur Reykjavíkurborgar um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í borginni fór fram í Ráðhúsinu í morgun. Fundurinn hófst á því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór yfir stöðuna í dag og áform um uppbyggingu víðs vegar um borgina, allt frá þéttingarreitum til nýrra hverfa.
„Síðustu fimm ár hafa verið metár en stóru fréttirnar eru þær að næstu tíu verða ennþá stærri. Þannig að Reykjavík er í rauninni að leggja fram plön um gríðarmikla uppbyggingu um alla borg. Sem er líka í takti við góðar samgöngur og á réttum stöðum þannig að þetta gangi allt upp hvað með öðru,“ segir Dagur.
Langatímameðaltal í uppbyggingu íbúða í Reykjavík hafi verið sex hundruð nýjar íbúðir á ári. Nú væri stefnt á að meðaltalið verði sextán hundruð.

„En næstu fimm viljum við sjá tvö þúsund íbúðir rísa. Erum í raun að sýna fram á að í skipulagi og lóðaúthlutunum gætu þær orðið allt að þrjú þúsund,“ segir borgarstjóri.
Dagur hefur hins vegar áhyggjur af nýlegum vaxtahækkunum og stöðu húsnæðismarkaðarins almennt gagnvart viðskiptabönkunum.
„Það sem að mun ráða hraðanum er ekki Reykjavík. Það mun ekki standa á okkur heldur framkvæmdafjármögnun frá lánastofnunum. Þar höfum við ákveðnar áhyggjur af því að það sé verið að framkalla mikla kulnun á þessum uppbyggingarmarkaði sem við höfum öll þörf fyrir að sé í góðu jafnvægi,“ sagði Dagur B. Eggertsson.