Hussein var meðal þeirra sem vísað var til Grikklands í vikunni. Hann notar hjólastól og en fær enga heilbrigðisþjónustu þar í landi, að sögn Semu Erlu.
„Þau eru á götunni í Grikklandi og eru náttúrulega bara að berjast fyrir tilverurétti sínum á hverjum degi og hverjum klukkutíma sem líður. Ég veit að Hussein og fjölskylda, sem ég hef aðeins verið í samskiptum við, eiga mjög erfitt uppdráttar. Þau eiga ekki í nein hús að vernda, þau hafa ekki aðgengi að mat eða heilbrigðisþjónustu,“ segir Sema Erla í samtali við fréttastofu.

Senda skýr skilaboð
Hún segir ljóst að aðstæðurnar séu ekki neinum bjóðandi og það sé með ólíkindum að stjórnvöld hér á landi haldi áfram að senda fólk til Grikklands. Stjórnarráðið sagði í yfirlýsingu í gær að brottvísanir til Grikklands brytu ekki í bága við lög, en aðstæður þar ytra hafa oft verið gagnrýndar.
„Þetta er vitneskja sem hefur legið fyrir ótrúlega lengi og við höfnum öllum þessum eftiráskýringum. Það hefði náttúrulega bara átt að grípa inn í áður en af þessari brottvísun varð. Við verðum að láta í okkur heyra og senda skýr skilaboð,“ segir Sema Erla.
Hún bætir við að óháð því hvaða skoðanir fólk kunni að hafa á málefnum flóttafólks hafi framkvæmdin sem slík verið „mannréttindabrot í skjóli nætur.“
Stjórnvöld dregin til ábyrgðar
„Þessi framkvæmd eins og við horfðum upp á hana er bara meðferð sem við getum ekki sætt okkur við. Það er alveg hægt að gera hlutina öðruvísi heldur en á þennan hátt. Við náttúrulega viljum bæði mótmæla þessum mannréttindabrotum á flóttafólki og þessu framferði stjórnvalda sem felur í sér að svipta fólki mannlegri reisn.“
Eins og fyrr segir hefur verið boðað til mótmæla klukkan 14:00 á Austurvelli á morgun; til að sýna samstöðu, mótmæla framferði stjórnvalda gagnvart fólki á flótta og að draga stjórnvöld til ábyrgðar.
„Það er kominn tími til þess að ríkisstjórn Íslands verði dregin til ábyrgðar fyrir framferði sitt gagnvart fólki; að þetta hafi einhverjar afleiðingar fyrir aðra en þá sem þessi brot beinast gegn. Það er kominn tími á breytingar,“ segir Sema Erla.