Til umfjöllunar var sú staðreynd að nóvembermánuður er að mestu leyti farinn að jafnast á við desembermánuð þegar kemur að útgjöldum heimilanna í aðdraganda jóla.
Farið er yfir verðbólgujólin fram undan í innslaginu hér að ofan og viðtal við Þorvald hefst á áttundu mínútu.

Netverslun er á meðal þess sem gerir nóvember að þeim mikla viðskiptamánuði sem hann er orðinn. Þorvaldur segist heyra það að fólk sé ófúsara að fara út fyrir heimilin og að salan sé dræmari en áður á jólatónleika. „Kannski rímar það við tölur um mikil netkaup í nóvember. Fólk hangir heima til að vera í eldhúsinu heima að versla,“ segir Þorvaldur.
Of mikil neysla vitnar um fyrirhyggjuleysi
Þorvaldur heldur að það stefni í óefni á fjármálamörkuðum. „Vextir hafa verið lágir en nú eru þeir byrjaðir að hækka og það mun íþyngja þeim sem hafa tekið mikið af lánum. Sannleikurinn er sá að skuldir bæði ríkisins, fyrirtækja og heimila um allan heim þær hafa vaðið upp í hæstu hæðir undangengin misseri, þannig að margir eiga von á nýrri fjármálakreppu bæði í útlöndum og hér heima,“ segir Þorvaldur. „Skjálftamælar okkar hagfræðinga eru, ég segi ekki rauðglóandi, en þeir eru byrjaðir að blikka.“
Enda þótt fólk hafi á að skipa nokkrum ráðstöfunartekjum, á það að hafa varann á að sögn Þorvalds. „Mér finnst þetta vitna um fyrirhyggjuleysi. Menn eiga að átta sig á að þegar vextir eru byrjaðir að hækka og skuldabyrðin farin að þyngjast, þá ættu menn heldur að halda að sér höndum frekar en að sitja heima í eldhúsi og kaupa grimmt í útlöndum.“