Íbúar fjölmenntu á fundinn og að sögn Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur, sem búsett er í Þorlákshöfn, var mikið spurt og sýndu sig verulegar áhyggjur meðal fundarmanna. Ása Berglind, sem er fulltrúi H-lista í Ölfusi hefur verið afar gagnrýnin á þessi áform og kom þeim í raun á dagskrá. Vísir hefur fjallað ítarlega um það hvað stendur fyrir dyrum.
Í kjölfar fundarins efndu andstæðingar áformanna til undirskriftarsöfnunar á netinu þar sem téðum fyrirætlunum er mótmælt undir yfirskriftinni „Enga jarðefnaverksmiðju í Þorlákshöfn“. Ása Berglind skrifar þar undir og gerir grein fyrir afstöðu sinni með orðunum: „Ég skrifa undir vegna þess að ég vil ekki sjá það að fá risavaxna jarðefnaverksmiðju í Þorlákshöfn með tilheyrandi þungaumferð. Ég treysti því ekki að við íbúarnir fáum að eiga lokaorðið og vill ekki að starfsfólk sveitarfélagsins eyði meiri tíma í þetta heldur en orðið er, en verkefnið er búið að vera í undirbúningi í 2-3 ár.“
Heidelberg lofar því að reynast góður granni
Í grein sem Ása Berglind skrifar ásamt Hrafnhildi Lilju Harðardóttur og birta á Vísi fara þær nánar í saumana á málinu eins og það horfir við þeim.
En í samtali við Vísi á ágúst sagði Þorsteinn Víglundsson, talsmaður HeidelbergCement Pozzolanic Materials ehf. á Íslandi, að fyrirtækið ætlaði sér sannarlega að reynast góður granni. Þó vitaskuld væri ekki fram hjá því litið að um sé að ræða afar umfangsmikla starfsemi á íslenskan mælikvarða, flutnings- og námuvinnslu.

„Ef af verkefninu verður er það einlægur vilji fyrirtækisins að vinna það í góðri sátt við samfélagið, bæði íbúa þess og náttúru, og mun Heidelberg kappkosta að vera í hvívetna góður nágranni,“ sagði Þorsteinn í ágúst. En íbúafundurinn er einmitt liður í því að semja frið um málið en áður en til fundarins kom hafði fyrirtækið dreift bæklingi í hvert hús bæjarins þar sem greint var lauslega frá því hvað verkefnið hefði í för með sér fyrir bæjarfélagið.
Segja blasa við að hagsmunir íbúa verði fyrir borð bornir
Þær Ása Berglind og Hrafnhildur trúa því hins vegar varlega að Heidelberg muni reynast eins góður granni og Þorsteinn lofar og vilja gjalda varhug við áformunum.
„Óhætt er að segja að þær upplýsingar sem fram komu á fundinum voru ekki til þess fallnar að kveða niður áhyggjuraddir. Heidelberg sér til að mynda ekki fyrir sér að gerlegt sé að færa verksmiðjuna annað hér í Ölfusi enda starfsemin þess eðlis að hún þarf að vera við höfnina vegna kostnaðar við að flytja fullunnið efnið langar vegalengdir og hefur Heidelberg þegar verið úthlutað síðustu lóðum við höfnina.

Því er ljóst að fyrirtækið hefur ekki áform um annað en að reisa verksmiðjuna á umræddum lóðum, við höfnina og bæjarmörkin, við vinsælt útivistarsvæði íbúa og gesta, við golfvöllinn og nánast ofan í íbúabyggð,“ segir meðal annars í greininni.
Þær Ása Berglind og Hrafnhildur Lilja segja jafnframt að engin atvinnutækifæri skorti í Ölfusi, þau séu svo mörg að ekki takist að manna þau störf sem til falla. Og þá þykir þeim yfirlýsing D-lista, sem í meirihluta sitja, þess efnis að ekki komi til greina að fórna hagsmunum íbúa undarleg í ljósi þess að fyrirtækinu hafi þegar verið úthlutað lóðum undir starfsemina. „Það er engum blöðum um það að fletta að ef af verður verði hagsmunum íbúa fórnað, þó ekki sé nema vegna umhverfisslyssins sem sjálf byggingin er og staðsetning hennar, sárum sem mokstur fjalla munu skilja eftir sig í Þrengslum og ónæðinu af flutningi efnisins ofan úr Þrengslum fyrir íbúa.“