Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá þegar flugvélin Vatnajökull sveif inn til lendingar á fjórða tímanum í dag. Síðasta flugið var frá Kaupmannahöfn, á Boeing 757, uppáhaldsflugvél Sigríðar, og það var með ráðum gert hjá Icelandair að velja þá vél sem máluð er í hátíðarlitum félagsins.

Farþegar sögðu okkur eftir á að þeir hefðu aldrei upplifað jafn mjúka lendingu og þessa. Það var rétt eins og flugvélin væri smurð ofan í flugbrautina. Framan við flugstöðina myndaði slökkvilið flugvallarins heiðursbunu.
Atvinnuflugmannsferill Sigríðar hófst fyrir 38 árum þegar hún var ráðin til Flugleiða sem flugmaður á Fokker Friendship-vélum. Þremur árum síðar var hún komin á þotur og árið 1996 varð hún flugstjóri.

Í flugstöðinni stóð hópur kvenflugmanna heiðursvörð þegar Sigríður gekk frá borði og aðstoðaryfirflugstjóri Icelandair, Ásgeir Stefánsson, afhenti henni blómvönd.
„Ég held að ég sé ekki búin að átta mig á þessu að þetta hafi verið lokalendingin. Bara svona rétt í lokalendingunni sem ég hafi áttað mig á því að þetta hafi verið síðasta flugið, - á þotum,“ sagði Sigríður, en var þó ekki á því að hún væri endanlega hætt að fljúga.
„Ég held að ég geti ekki sleppt því. Það er svo gaman að fljúga. Ég verð bara að fara að endurnýja einkaflugmannsréttindin og flögra á litlum vélum.“

Sem fyrsta konan í stétt íslenskra atvinnuflugmanna árið 1984 verður nafn hennar skráð í flugsögu Íslands.
„Ég var ein næstu fimm ár. Eftir tíu ár vorum við þrjár. Eftir tuttugu ár var tíunda konan ráðin, - fyrir átján árum. En núna erum við held ég orðnar 77 talsins.“

Konur eru núna þrettán prósent flugmanna Icelandair og verða fjórtán prósent næsta sumar.
„En eigum ennþá verk að vinna. Viljum fá hlutfallið hærra.
Og ég myndi óska þess að menningin myndi líka breytast hraðar. Hún er alltof karlæg ennþá.
En það hjálpar með fleiri kvenflugmönnum. En það líka hjálpar að taka á ýmsum öðrum þáttum. Þetta er ekki karlastarf lengur. Við erum búnar að sýna og sanna það,“ sagði Sigríður Einarsdóttir flugstjóri.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: