Forsvarsmenn Eflingar greina frá þessu í tilkynningu sem send var á fjölmiðla rétt í þessu. Þar segir að viðræður milli aðila samkvæmt viðræðuáætlun þeirra hafi reynst árangurslausar.
„Við erum eina félagið sem hefur sett fram kröfugerð með tölusettum launakröfum. Við höfum verið opinská og heiðarleg við okkar viðsemjendur. Áhuga- og virðingarleysi Samtaka atvinnulífsins gagnvart félagsfólki Eflingar er hins vegar algjört,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í tilkynningu.
Hún segir að SA hafi hvorki veitt sér svör né viðbrögð og því sé það rétt og óhjákvæmilegt að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Samningafundur hefur ekki verið boðaður en alls fóru fjórir fundir fram milli SA og samninganefndar Eflingar í nóvember.
Fyrr í mánuðinum vísuðu VR, Landssamband íslenskra verzlunarmanna (LÍV) og Starfsgreinasamband Íslands (SGS) kjaraviðræðum sínum við SA til ríkissáttasemjara. SGS skrifaði undir kjarasamning á laugardaginn en VR og LÍV eru enn í viðræðum við SA.