Hussein var meðal fimmtán hælisleitenda sem vísað var úr landi snemma í nóvember og flogið til Grikklands með valdi.
„Ég er mjög glaður að vera kominn aftur hingað til Íslands,“ segir Hussein.
Ósannað að fjölskyldan hafi tafið málið
Fjölskyldan var fyrir brottvísun sökuð um að hafa tafið mál sitt. Lögmaður þeirra segir að dómurinn hafi talið það ósannað.
„Hvaða þýðingu þetta hefur fyrir fólkið er að að óbreyttu ættu íslensk stjórnvöld að taka málið þeirra til efnislegrar meðferðar,“ segir Claudia Wilson, lögmaður.

Hussein notar hjólastól og gagnrýndu ýmis samtök hvernig stjórnvöld stóðu að framkvæmdinni.
„Þegar ég var í Grikklandi var lífið martröð en þegar ég er hér er ég mjög glaður því hér get ég fengið heilbrigðisþjónustu og ég elska Ísland. Ég er mjög glaður,“ segir Hussein.
Claudia segir dóminn hafa fordæmisgildi í þeim málum þar sem fólk hefur verið sakað um að tefja mál sitt. Systur Hussein stunduðu nám í Fjölbrautaskólanum við Ármúla áður en þeim var vísað úr landi og hafa stundað námið í fjarnámi í Grikklandi.

Hlakka til að mæta í skólann
„Mér heyrist af stelpunum að þær séu mjög mjög ánægðar að geta farið aftur í skólann á morgun. Það fannst mér skemmtilegt. Þær vilja halda hundrað prósent mætingu,“ segir Claudia.
„Á morgun fer ég í skólann. Ég er mjög spennt. Ég mun hitta vini mína og er mjög spennt að vera komin til Íslands.“
„Ég held að þær séu mjög efnilegar og vilja láta gott af sér leiða til samfélagsins,“ segir Claudia.
Fréttin hefur verið uppfærð.