Málið má rekja til þess að Gunnar Guðmundsson, prófessor við Háskóla Íslands, Snævarr Guðmundsson, sviðsstjóri Náttúrustofa Suðausturlands, og Leifur Örn Svavarsson fjallaleiðsögumaður sendu á dögunum inn erindi til sveitarstjórnar Skaftárhrepps.

Þar leggja þeir til að umræddur tindur, sem er 1.374 metra hár, um 2,5 kílómetra vestan frá Geirvörtum og um fjórum kílómetrum norðaustur af Hágöngum, verði nefndur í höfuðið á Helga. Vildu þeir með því heiðra Helga fyrir hans merku vísindastörf.
Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti fyrir sitt leyti tillöguna, en vísaði henni til nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum „til ákvörðunartöku". Stofnunin áframsendi málið til örnafnanefndar.
Sérfræðingar mæla ekki með að nefna örnefni eftir lifandi fólki
Umsögn nefndarinnar hefur nú borist og var hún kynnt í sveitarstjórn Skaftárhrepss í síðustu viku. Í umsögninni vekur nefndin athygli á því að það sé ekki hlutverk Árnastofnunar eða örnefnanefnd að taka ákvörðun um ný nöfn á náttúrufyrirbærum. Afrit af umsögninni var einnig sent Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra.
Í umsögninni er vísað í lög um örnefni þar sem fram kemur að hlutverk nefndarinnar sé að veita umsögn um nöfn á nýjum náttúrufyrirbærum, frumkvæðið komi frá sveitarfélögum og endanlega ákvörðun taki menningar- og viðskiptaráðherra.

Ekki sé fullljóst hvort að umræddur teljist nýr, en líklegt er að hann hafi komið undan jökli á síðustu öld.
Þá segir nefndin að hún starfi eftir því meginsjónarmiði að ekki skuli nefna náttúrufyrirbæri eftir núlifandi fólki. Þetta byggi á tilmælum í ályktun sérfræðingahóps um örnefni, sem starfar á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Telur nefndin því ekki rétt að mæla með nafngift sem gangi í berhöggi við þau tilmæli.