Hafnfirðingurinn verður bara tvö ár hjá Álaborg en ekki þrjú eins og til stóð. Hann gekk í raðir félagsins frá Barcelona í fyrra.
Öruggar heimildir íþróttadeildar herma að Aron sé á heimleið og gangi í raðir FH. Arnar Daði Arnarsson, þáttastjórnandi Handkastsins og sérfræðingur Seinni bylgjunnar, greindi einnig frá þessu á Twitter í gærkvöldi. Aron verður kynntur sem leikmaður FH á blaðamannafundi síðdegis.
Aron lék síðast með FH tímabilið 2008-09. Hann var þá valinn besti ungi leikmaður efstu deildar og besti sóknarmaður hennar. Eftir tímabilið gekk hann í raðir Kiel þar sem hann lék undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.
Auk Kiel, Álaborgar og FH hefur hinn 32 ára Aron leikið með Veszprém í Ungverjalandi og Barcelona á Spáni. Hann er einn sigursælasti handboltamaður sögunnar og hefur meðal annars unnið Meistaradeild Evrópu í þrígang.
Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikill hvalreki koma Arons er fyrir FH enda hefur hann verið einn besti handboltamaður heims undanfarinn áratug.
Aron er á leið á heimsmeistaramótið í Svíþjóð og Póllandi en hann hefur verið fyrirliði íslenska landsliðsins síðan Guðjón Valur Sigurðsson lagði skóna á hilluna 2020. Hann hefur leikið 148 landsleiki og skorað í þeim 576 mörk.
FH er í 2. sæti Olís-deildarinnar með nítján stig, fjórum stigum á eftir toppliði Vals. FH-ingar hafa ekki tapað deildarleik síðan gegn Valsmönnum 23. september.