Í dagbókarfærslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir gærkvöldið og nóttina segir að vitað sé hver stóð að baki þjófnaðinum, enda hafi hann sést á upptöku öryggismyndavéla. Þá stal sami maður einnig úlpu af einstaklingi í sömu verslunarmiðstöð.
Skömmu síðar var tilkynnt um frekari þjófnað í Kópavogi. Þar hafði maður verið stöðvaður þegar hann var að yfirgefa verslun með fatnað sem hann hafði ekki greitt fyrir. Maðurinn viðurkenndi brotið og kvaðst hafa stolið fötunum því honum væri svo kalt.
Þá var maður í mjög annarlegu ástandi handtekinn í hverfi 110 á áttunda tímanum í gærkvöldi. Sá hafði verið að skemma bifreiðar.
Rólegt kvöld í miðborginni
Af dagbók lögreglunnar að dæma var gærkvöldið óvenjurólegt, allavega miðað við föstudagskvöld. Það skyldi engan furða enda örstutt í jól.
Þó virðist sem jólastressið hafi farið illa með suma ökumenn. Alls voru fjórir ökumenn stöðvaðir fyrir að hafa ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Þrír þeirra játuðu brot sín skýlaust en einn kvað gult ljós hafa logað.
Þá var einn gripinn við ölvunarakstur í hverfi 105. Sá reyndist ekki vera með gild ökuréttindi í þokkabót.