Þessi hugljúfa saga af jólagóðverki birtist á dögunum á vef Akureyri.net.
Katrín Sylvía var að afgreiða konu á kassanum í Bónus og þegar konan hafði lokið við að ganga frá vörunum rétti hún Katrínu Sylvíu umslag og hélt svo sína leið.
Katrín Sylvía segist hreinlega hafa farið að gráta við afgreiðslukassann þegar hún opnaði umslagið og sá hvað leyndist í því.
„Í umslaginu var ótrúlega fallegt bréf, þar sem hún hrósaði mér mikið, og 10 þúsund króna seðill!“
Í bréfinu þakkaði konan Katrínu Sylvíu fyrir allt sem hún hefði gert á árinu til að gera heiminn og umhverfið í kringum sig betra. Þar stóð meðal annars:
„Ég skynja að þú hefur gert margt sem snertir aðra á jákvæðan hátt. Mun meira en þú gerir þér grein fyrir.“
Katrín Sylvía segist hafa fundið út nafn konunnar í kjölfarið og hringt í hana. Þá kom í ljós að Katrín Sylvía var ekki eini kassastarfsmaðurinn á Akureyri sem hafði fengið umslag frá hinni gjafmildu konu, heldur var hún sú fimmta í röðinni.
„Konan sagði að ég væri besti kassastarfsmaður sem hún hefði hitt og ég ætti þetta skilið. Hún hrósaði mér svo mikið, sagði að kúnnarnir skiptu mig greinilega öllu máli og það er alveg rétt hjá henni; mér finnst skipta öllu máli að koma vel fram við viðskiptavinina.“