Kakkalakkar eru engir auðfúsugestir á heimilum landsins og í augum margra eru þeir táknmynd óþrifnaðar og þykja heldur ógeðfelldir. Hvort sem það er sanngjarnt eða ekki.
Nokkrar tegundir kakkalakka finnast á Íslandi og hafa þeir fundist í öllum landsfjórðungum. Guðmundur Óli Scheving, meindýraeyðir og tónlistarmaður, segir það nokkuð reglulegt að kakkalakkafaraldrar blossi upp.
„Já auðvitað það kemur alltaf fyrir annað kastið að þeir gjósa upp. Og eftir að þú hafðir samband við mig þá hringdi ég í nokkra úti á landi og í Reykjavík og annað. Þetta virðist nú ekkert vera annað en þetta venjulega sem gýs upp annað kastið.“
En hver er algengasta tegund kakkalakka og hvernig koma þeir til landsins?
„Þessi þýski hefur verið miklu meira á ferðinni, en það náttúrulega er að breytast bara eins og. Við erum að setja 70-80 þúsund manns sem fer til Spánar og Tenerife núna. Við erum að fá tvær og hálfa milljón af farþegum erlendis frá frá ýmsum löndum þar em til dæmis veggjalúsin er landlæg.“
Mannfólkið hefur alltaf verið skilvirkast í að flytja skordýr út um allt. Hvort sem það er viljandi eða ekki. En hvað á fólk að gera ef það rekst á kakkalakka heima hjá sér?
„Það er náttúrulega fyrst og fremst að um leið og einn kemur þá er náttúrulega langbest að fá bara gildru, ég er hérna einmitt með og hef flutt inn tæki með hormóni í sem dregur til sín öll þessi dýr.“