„Frekari rannsóknarstarfsemi og nýjar uppgötvanir eru mikilvægar til að viðhalda framleiðslu á olíu og gasi, bæði fyrir Noreg og Evrópu,“ er haft eftir olíumálaráðherranum í fréttatilkynningu norskra stjórnvalda undir fyrirsögninni: „Mikill áhugi á frekari leit á norska landgrunninu.“ Kvaðst hann stoltur af úthlutuninni enda væri um að ræða fjölbreyttan hóp leyfishafa.
Leyfin eru til alls 25 olíufélaga, allt frá stórum alþjóðlegum olíurisum til minni norskra leitarfyrirtækja. Tólf fyrirtækjanna býðst fleiri en eitt leyfi og er bindandi verkáætlun tengd öllum leyfum. Flest leyfanna eru í Norðursjó, 29, í Noregshafi eru 16 leyfi og í Barentshafi tvö.
Stjórnarskiptin í Noregi haustið 2021, þegar hægri stjórn Ernu Solberg vék fyrir mið-vinstristjórn Jonas Gahr Støre, virðast litlu hafa breytt um þá meginstefnu norskra stjórnvalda að halda fullum dampi í olíuiðnaðinum til langrar framtíðar. Það er helst að dregið sé úr leyfisveitingum á norðlægustu hafsvæðunum í Barentshafi.

„Árleg úthlutun leitarsvæða er liður í því að stuðla að stöðugri starfsemi á landgrunninu og til að ná meginmarkmiðum olíustefnu stjórnvalda. Olíugeirinn er mjög afkastamikill iðnaður sem leggur til miklar tekjur, verðmætasköpun og störf.
Þessi úthlutun í dag er einnig mikilvægt framlag til að tryggja að Noregur verði áfram öruggur og fyrirsjáanlegur birgir olíu og gass til Evrópu,“ sagði olíumálaráðherrann Terje Aasland en hann kemur úr Verkamannaflokknum.
Þótt meira en hálf sé liðin frá upphafi norska olíuævintýrisins eru enn að finnast stórar olíu- og gaslindir í norsku lögsögunni. Eitt nýlegasta dæmið er Johan Sverdrup-svæðið í Norðursjó en þar hófst olíuvinnsla formlega fyrir tveimur árum, eins og sjá má í þessari frétt Stöðvar 2: