Hún var 53 cm og 17,5 merkur. Foreldrarnir eru þau Matthildur María Guðmundsdóttir, stöðvarstjóri hjá Landsvirkjun á Sogssvæði og Oddgeir Eiríksson, vélaverktaki í eigin rekstri hjá Strá ehf. Fyrir eiga þau Elínu, sem er fædd 19. október 2019. Fjölskyldan býr í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
“Við áttum nú frekar von á því að fólk hefði verið búið að drífa í þessu á undan okkur. Það var langt liðið á árið þann 8. janúar. Ein amma barnsins hafði þó alltaf sagt að þetta yrði fyrsta barn ársins á Suðurlandi þannig að hún hafði rétt fyrir sér,” segir Matthildur og hlær.

Ánægð með þjónustu fæðingardeildar HSU
Matthildur segir að hjónin hafi verið mjög ánægð með alla þá þjónustu, sem þau fengu á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi (HSU) og þjónustuna í mæðraverndinni á heilsugæslustöðinni í Laugarási í Bláskógabyggð.
“Herborg Pálsdóttir, ljósmóðir tók á móti stúlkunni á Selfossi en hún hafði einnig sinnt okkur í mæðravernd í Laugarási. Þjónustan var samfelld, fagleg og góð. Það var í raun tilviljun að Herborg væri á vaktinni þegar ég fór af stað því hún hafði verið í fríi einhverja daga á undan og höfðum við grínast með það að barnið kæmi ekki fyrr en Herborg væri komin aftur til vinnu. Við vorum mjög ánægð að hafa ljósmóður í fæðingunni sem ég þekkti vel og treysti. Einnig var til aðstoðar Gróa Sturludóttir ljósmóðir en hún hafði einmitt leyst Herborgu af í tvö skipti í mæðraverndinni og þekkti hún því einnig okkur foreldranna, sem var góð tilhugsun í fæðingunni,” segir Matthildur. Rakel Ásgeirsdóttir ljósmóðir sinnir nú heimaþjónustu fyrstu dagana eftir fæðingu eins og með fyrra barn þeirra hjóna. „Ljósmæðurnar hjá HSU eru allar svo yndislegar og gott að leita til þeirra til að fá aðstoð, stuðning og ráð,” bætir Matthildur við.
10 vatnsfæðingar 2022
Alls fæddust 56 börn á fæðingardeildinni á síðasta ári, 20 stúlkur og 36 drengir. Vatnsfæðingar voru 10. Þá voru 7 fæðingar á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum á nýliðnu ári og tvær fæðingar á Höfn í Hornafirði samkvæmt upplýsingum frá Björk Steindórsdóttur, yfirljósmóður hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
