AP segir frá því að maður að nafni Tetsuya Yamagami hafi verið ákærður, en hann var handtekinn skömmu eftir að hafa skotið Abe á kosningafundi í borginni Nara þann 8. júlí síðastliðnum.
Hinn 67 ára Abe var skotinn í tvígang þar sem hann flutti ræðu til stuðnings frambjóðanda og lést hann af sárum sínum á sjúkrahúsi skömmu síðar.
Yamagami hefur viðurkennt að hafa skotið Abe með heimagerðu skotvopni. Við yfirheyrslu sagðist hann hafa ráðist gegn Abe vegna tengsla forsætisráðherrans við Sameiningarkirkjuna í Japan sem Yamagami sjálfur fyrirleit.
Síðustu mánuði hefur Yamagami gengist undir umfangsmiklar geðrannsóknir og var niðurstaðan sú að hann sé metinn sakhæfur.
Shinzo Abe var forsætisráðherra Japan í eitt ár frá 2006 til 2007 og svo aftur í átta ár frá 2012 til 2020. Hann sagði af sér 2020 vegna sáraristilbólgu sem hann þjáðist af, en hann er sá forsætisráðherra Japans sem hefur gegnt embætti lengst.