RÚV greindi fyrst frá og hefur eftir oddvita Sjálfstæðisflokksins að málið sé komið ofan í skúffu. Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar fagnar niðurstöðunni.
Uppi varð fótur og fit í nóvember 2021 þegar meirihlutinn á Akureyri samþykkti bann við lausagöngu katta í bænum. Sjö bæjarfulltrúar voru fylgjandi tillögunni en fjórir á móti. Bannið átti að taka gildi í ársbyrjun 2025.
Bannið vakti mikla umræðu og í apríl 2022 dró bæjarstjórnin aðeins í land. Lausaganga yrði aðeins bönnuð að næturlagi, frá miðnætti og til sjö á morgnana. Reglurnar áttu að taka gildi í ársbyrjun 2023. Af því varð ekki og raun engin breyting orðið á því hvenær kettir mættu vera á vappinu.
Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir ástæðuna þá að málið hafi aldrei farið í seinni umræðu í bæjarstjórninni. Þá umræðu þurfi til að nýjar reglur taki gildi. Þá bætist við kosningarnar vorið 2022. Þá varð breyting á meirihlutanum þó Sjálfstæðisflokkurinn, sem talaði fyrir banninu, sé enn í meirihlutanum.
Lára segir að málið hafi ekkert verið til umræðu á yfirstandandi kjörtímabili. Hún viti hreinlega ekki hvort það sé vegna skorts á vilja. Persónulega hefði hún viljað leggja til tilmæli við að kettir væru ekki á vappinu á nóttunni eða yfir varptíma.
Tilmæli henti betur en bann enda sé stór ákvörðun að banna lausagöngu því þá þurfi að framfylgja slíku banni með starfsmanni eða á annan hátt.