Í gildandi lögum eru börn sjálfkrafa skráð í sama trú- eða lífsskoðunarfélag og foreldrar þess óháð því hvort skýr afstaða foreldranna liggi fyrir. Með breytingunni þyrfti skýr afstaða foreldra eða barns að vera til staðar. Þá verður úrsögnum úr trúar- og lífsskoðunarfélögum beint til Þjóðskrár en ekki til forstöðumanns félaganna. Loks verður börnum 12 ára og eldri gert kleift að ákveða félagsaðild sína í trú- og lífsskoðunarfélag sjálf en ekki 16 ára eins og kveðið er á um í dag.
Hildur ræddi breytingarnar í Reykjavík síðdegis í dag:
Hún segir að frumvarpið muni ekki hafa áhrif á fjárhagsstöðu trúfélaga þar sem fjárhæð fylgi ekki einstaklingi í trúfélagi fyrr en hann nær 16 ára aldri. Hún vill ekki segja til um hvort það muni fækka mikið í þjóðkirkjunni með breytingunni. „Það eru örugglega áhyggjur einhverra, ég ætla ekki að gera lítið úr því, en það má líka spyrja sig hvort eðlilegt sé að fólk sé í þjóðkirkjunni en veit varla af því,“ segir Hildur.
Hún segir eðlilegast að ákvörðun um skráningu sé tekin með skýrum vilja viðkomandi.
„Ég vil nota tækifærið og segja að ég er í engri herferð gegn þjóðkirkjunni með þessu frumvarpi. Ég er sjálf í þjóðkirkjunni og hef ekkert upp á hana að klaga. Þetta snýst ekkert um það heldur miklu frekar prinsippið um að svona ákvörðun eigi að vera tekin með meðvitund einstaklings.“