Maðurinn sem handtekinn var í dag er sagður heita Arthur E. og er hann þýskur ríkisborgari. Hann var handtekinn er hann kom til Þýskalands frá Bandaríkjunum á sunnudaginn en handtakan var ekki opinberuð fyrr en í dag.
Arthur er grunaður um að hafa fært rússneskum yfirvöldum leynilegar upplýsingar sem Carsten L., áðurnefndur starfsmaður BND, stal frá leyniþjónustunni, samkvæmt frétt DW. Arthur er ekki starfsmaður BND en Carsten var handtekinn í desember.
Lögreglan í Þýskalandi naut aðstoðar Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI.
Fyrrverandi yfirmaður í þýska hernum, sem starfaði enn í varalið hersins, var dæmdur í nóvember í fyrra fyrir að leka upplýsingum til rússneskra njósnara. Þá var yfirmaður netvarna Þýskalands rekinn í október eftir að þýskir fjölmiðlar bentu á að hann tengdist fólki sem vinnur í rússneskum leyniþjónustum.
Árið 2021 var starfsmaður þýska þingsins ákærður fyrir að hafa lekið teikningum og öðrum gögnum um þinghúsið til starfsmanns sendiráðs Rússlands í Berlín.
Sjá einnig: Sendi teikningar af þinghúsi Þýskalands til rússnesks njósnara
Síðast þegar mál sem þetta kom upp var árið 2016 þegar fyrrverandi starfsmaður BND var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að leka leynilegum upplýsingum til Bandaríkjanna.
Innrás Rússa í Úkraínu hefur leitt til aukinna áhyggja af njósnum þeirra á meginlandi Evrópu. Mörg ríki heimsálfunnar hafa vísað fjölmörgum rússneskum erindrekum og meintum njósnurum úr landi.