Mál Hussein og fjölskyldu vakti gríðarlega athygli á sínum tíma en þeim var vísað úr landi í fylgd fjölmenns liðs lögreglu í nóvember. Hann kom síðan aftur til landsins í janúar eftir úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.
Umboðsmaður Alþingis hóf athugun í kjölfarið um framkvæmdina og lauk þeirri athugun í gær. Í svari embættis ríkislögreglustjóra um málið kom meðal annars fram að mótmæli hafi haft áhrif á upprunalegar áætlanir lögreglu og að ekki hafi verið hægt að tryggja öryggi á vettvangi.
Sema Erla Serdar, baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks, er meðal þeirra sem furðar sig á svarinu en hún segir í færslu á Facebokk að ríkislögreglustjóri ljúgi upp á almenning. Mótmælin sem um ræðir hafi verið fámenn, þau hafi verið að sýna fjölskyldunni stuðning, og fráleitt að þau hafi ógnað öryggi.
„Það er auðvitað hlægilegt að Ríkislögreglustjóri skulu halda því fram að lögreglan, sem taldi á tímabili öruggleg fleiri en 20 lögregluþjóna, hafi ekki getað "tryggt öryggi" Hussein og fjölskyldu fyrir mótmælendum,“ skrifar Sema meðal annars.
Gera ekki athugasemdir við friðsamleg og lögleg mótmæli
Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri hjá embætti Ríkislögreglustjóra, segir að um hafi verið að ræða nauðsynlega aðgerð.
„Mótmælin sjálf, það var boðað til þeirra og í kjölfarið gerði lögregla þessar breytingar á sinni aðgerð. Eins og það er orðað í þessu bréfi þá er það þannig að við getum ekki útilokað það að mótmælin verði fjölmennari en þau svo voru,“ segir Gunnar en sömuleiðis hafi verið möguleiki að einhver myndi reyna stöðva brottflutninginn.
Fyrstu áætlanir hafi þá gert ráð fyrir að Hussein, sem notast við hjólastól, yrði fluttur til Keflavíkur í bifreið útbúinni fyrir hjólastól en það reyndist ekki hægt.
„Embætti lögreglustjóra ber náttúrulega ábyrgð á fylgdinni sjálfri og það er ekki við mótmælendur að sakast þó að lögregla breytir sínum aðgerðum vegna mótmæla. Og framkvæmdin, það að ekki hafi verið viðaeigandi bíll til staðar, það er aftur á ábyrgð embættisins,“ segir Gunnar.
Hann ítrekar að þau kenni mótmælendum ekki um.
„Við gerum ekki athugasemdir við mótmælin sem voru þarna eða friðsamleg og lögleg mótmæli en það er vegna þessara mótmæla sem að lögregla breytti tímasetningum á fylgdinni,“ segir Gunnar.
Þannig það voru kannski meira kringumstæðurnar sem hefðu getað skapast frekar en kringumstæðurnar sem voru?
„Algjörlega.“