Fram kemur í úrskurði ráðuneytisins, sem var birtur á tíunda tímanum í morgun, að það meti svo að miðlunartillaga ríkissáttasemjara hafi verið liður í sáttastörfum hans í yfirstandandi kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar. Því geti miðlunartillagan ekki talist ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga. Þannig meti ráðuneytið það svo að miðlunartillaga ríkissáttasemjara geti ekki talist stjórnvaldsákvörðun sem heimilt er að kæra til æðra stjórnvalds.
Eins og áður segir hefur Efling þegar skotið kærunni til héraðsdóms og óskað eftir flýtimeðferð. Má því gera ráð fyrir að málið verði tekið þar fyrir á næstu dögum.
Þá er dagurinn í dag stór í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Eflingar og ríkissáttasemjara hins vegar. Málflutningur fer í dag fram fyrir héraðsdómi í máli Eflingar og ríkissáttasemjara en sáttasemjari hefur óskað eftir að fá kjörskrá Eflingar afhenta til að geta lagt miðlunartillöguna fyrrnefndu fyrir félagsfólk.
Þá er málflutningur í máli Eflingar og SA í Félagsdómi síðdegis en Samtök atvinnulífsins vilja fá úr því skorið hvort Eflingarliðum sé heimilt að leggja niður störf, eins og ráðgert er á þriðjudag, á meðan miðlunartillaga ríkissáttasemjara liggur á borðinu.