RÚV greinir frá útgáfu ákærunnar. Einn sætir ákæru fyrir tilraun til manndráps, tíu fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og fjórtán fyrir hlutdeild í árásinni. Þrír karlmenn slösuðust í árásinni.
Í frétt RÚV kemur fram að sá sem er ákærður fyrir manndrápstilraun hafi verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald í dag. Sá hefur verið í gæsluvarðhaldi í tólf vikur sem er mesti mögulegi tími án útgáfu ákæru. Honum er gefið að sök að hafa stungið þrjá menn með hníf en hinir tíu veist að þeim með því að kýla og sparka í þá.
Mennirnir þrír sem slösuðust krefjast fimmtán milljóna króna í bætur.
Óhætt er að segja að árásin á Bankastræti Club hafi valdið óhug meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins og víðar. Öryggisgæsla í miðbænum var efld til muna um helgina og þá virðist árásin tengjast deilum tveggja hópa. Þær deilur hafa leitt af sér frekari hótanir í formi bensínsprengja á hús og líkamsárásar í fangelsi.
Lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu lak myndbandi af árásinni úr öryggismyndavél. Honum var vikið frá störfum og hefur samkvæmt upplýsingum fréttastofu ekki verið óskað eftir frekara framlagi hans. Lekinn er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara.
Fréttin hefur verið uppfærð.