Vitað er um að minnsta kosti fjóra íslenska veitingamenn, sem eru með veitingastaði eða bari á Tenerife. Níels Hafsteinsson er einn af þeim en hann er með tvo bari og einn veitingastað, sem heitir „Smoke Bros“, sem nýtur mikilla vinsæla. Níels er með um 45 starfsmenn í vinnu og hann er að fara að flytja veitingastaðinn í nýtt og stærra húsnæði vegna vinsældar staðarins.
Og hvað ertu helst að bjóða upp á, er það kjötsúpa eða?
„Nei, ég er ekki komin með hana á seðilinn, það verður örugglega næsti staðurinn. Nei, nei, hérna erum við með mikið af hægelduðum mat og erum með reykofn þar sem við erum að elda allskonar vöðva, sem eru ekki venjulega á veitingahúsum. Það er engin annar staður að gera þetta, sem við erum að gera hér á Tenerife, sem er bara gaman,“ segir Níels.
Níels segist fá mikið af Íslendingum til sín.
„Já, já, eins og í kvöld, þá eru þrjú Íslendingaborð af einhverjum tíu borðum hérna og það er bara gaman.“
Níels segir að Spánverjar séu allt öðruvísi en Íslendingar þegar kemur að daglegu lífi.

„Hér gerast hlutirnir mjög hægt. Ég til dæmis ætlaði að opna þennan stað hérna 6. september í haust en ég opnaði 24. desember. Það er bara eðlilegt hérna. Hér er allt „Mani ana“, sem þýðir á morgun,“ segir hann og skellir upp úr.
„Já, hér gerist allt rosalega hægt og það er mikið pappírsflóð hérna. Ég get sagt ykkur það að ég til dæmis sendi fax í fyrra af því að það er ein ábyrg skrifstofa hérna, sem vill bara fá alla hluti á faxi. Ég hef ekki sent fax síðan á síðustu öld fyrr en ég gerði þetta,“ bætir Níels við og hlær enn meira.
Íslendingar eru mjög ánægðir með veitingastaðinn hjá Níels og finnst gott og traustvekjandi að fara á stað þar sem Íslendingur er allt í öllu.

„Þetta er bara eins og að mæta í sunnudagshádegismat hjá ömmu, það vantar reyndar rabarbarasultuna en þetta er frábær matur hjá Níels,“ segir Ásgeir Ingólfsson gestur á veitingastaðnum „Smoke Bros“
„Heyrðu, þetta er fínn staður, mjög fínn, góður matur, maður á að prófa allt svona hér á Tenirife,“ segir Ólöf Ingibergsdóttir gestur á staðnum.