Verslanir og fyrirtæki landsins taka í dag á móti syngjandi barnahópum í búningum - sem búast við sælgæti að launum. Sá háttur verður sannarlega hafður á í Kringlunni í dag, að sögn Baldvinu Snælaugsdóttur markaðsstjóra.
„Við búumst við miklu lífi og fjöri í húsinu. Þegar fer að nálgast hádegi og upp úr hádegi, þá verður mikið gaman. Þetta er skemmtilegasti dagur ársins fyrir marga, ekki síður þá sem starfa í verslunum. Við hvetjum verslunareigendur til að taka vel á móti börnunum, þetta eru framtíðarviðskiptavinir. Og svo pössum við í Kringlunni upp á að birgðirnar séu nægar, erum með nammibirgðastöð í þjónustuveri, svo verslanir geta þá leitað til okkar,“ segir Baldvina.
„Ég sé einmitt einn eiganda hérna labba með tunnu af nammi inn í verslun sína.“
Baldvina býst við allt að þrjú þúsund, syngjandi börnum í Kringluna í dag. Og fyrstu barnahóparnir voru þegar byrjaðir að þenja raddböndin fyrir hádegi.
Kötturinn verður sleginn úr tunnunni í Kringlunni klukkan tvö í dag og þá verður frítt í bíó fyrir börnin klukkan hálf tvö. Í Smáralind er boðið upp á myndabás eftir hádegi og afslátt af leikjakortum - og þá hefur vitanlega verið þétt dagskrá á Glerártorgi á Akureyri, höfuðvígi öskudagsins; verðlaunaafhending söngva- og búningakeppni var nú klukkan 12 og kötturinn sleginn úr tunnunni í kjölfarið.