Samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið í brennidepli undanfarna mánuði en meðal þeirra sem hafa gagnrýnt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins eða Borgarlínu eru borgarfulltrúar og jafnvel þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Bæjarstjórar og aðrir fulltrúar í nágranna sveitarfélögum, til að mynda Garðabæ og Kópavogi, verið harðorðir og kallað eftir endurskoðun sáttmálans. Fleiri hafa sömuleiðis lagt orð í belg.
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði til í síðustu viku að endurskoðunarákvæði sáttmálans yrði virkjað þar sem áætlunargerð væri í uppnámi og margvíslegar forsendur brostnar hvað varðar fjármögnun. Þá hafa aðrir sagt kostnað hafa hækkað upp úr öllu valdi og framkvæmdir staðið í stað.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra bendir á að sáttmálinn frá 2019, sem er til fimmtán ára, hafi falið í sér fjölmörg verkefni.
„Það voru ellefu stofnframkvæmdir, ég held að við séum búin með þrjú, fjórða að klárast og fimmta að hefjast, búið að leggja þrettán kílómetra af hjóla og göngustígum, það er búið að verja um tveimur og hálfum milljarði í hönnun á Borgarlínu og svona fyrsta verkefnið fer að sjást í á þessu ári, Fossvogsbrúin. Þannig að nei, það er ekki rétt að það sé ekki neitt að gerast, það er fullt að gerast,“ segir Sigurður Ingi.
Það sé þó rétt að framkvæmdir mættu vera hraðari en þau viti nú meira og væntingarnar um hvað mannvirkin eigi að þola séu einnig meiri víða, til að mynda hvað varðar Sæbrautarstokk.
Þá hafi kostnaðurinn aukist af ýmsum ástæðum, samgönguvísitala hafi hækkað, verðbólgan sé mikil og óvissa til staðar meðal annars vegna stríðsins í Evrópu. Forsendur sáttmálans séu þó ekki brostnar.
„Það er verðbólga, það eru hækkanir á öllum hlutum. Ef við lítum svo á að það séu forsendur brostnar fyrir öllu því sem við erum að gera, þá gerum við ekki neitt og þar er ég ekki,“ segir Sigurður Ingi.
Engu að síður sé eðlilegt að staldra við, setjast niður og mögulega endurskoða ákveðna þætti.
„Setja upp nýjar verkáætlanir, fjárhagsáætlanir, arðsemismeta. Jafnvel síðan setjast bara niður ríki og sveitarfélög, er þörf á að uppfæra eða búa til viðauka vegna þess að forsendur hafa breyst,“ segir hann og bendir til að mynda á að hjólastígar séu mun meira notaðir, meðal annars með tilkomu rafhlaupahjóla, en þegar sáttmálinn var í undirbúningi.
Það sé ekki óeðlilegt að gagnrýnisraddir heyrist nú meðal sveitarstjórnarfulltrúa og þingmanna úr röðum Sjálfstæðisflokksins þar sem nýtt fólk hafi komið inn víða eftir kosningar. Margir séu ef til vill hræddir við reksturinn á almenningssamgöngum en ráðherrann segist tilbúinn til að ræða málin. Það ætti að skýrast á næstunni hvernig hægt sé að bregðast við. Sáttmálinn standi.
„Ég held að þetta hafi verið tímamótaplagg og gríðarlega mikilvægt að fá þessa sameiginlegu framtíðarsýn,“ segir Sigurður Ingi. „Ég sé bara spennandi hluti áfram í kringum sáttmálann og við getum þróað hann í mjög jákvæða átt á næstunni.“