Tillaga um að leggja Borgarskjalasafn niður og að færa lögbundin verkefni til Þjóðskjalasafns er ein af þremur sviðsmyndum sem KPMG, endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtæki, vann fyrir borgina. Hinar sviðsmyndirnar lúta annars vegar að því að borgin myndi áfram standa undir kostnaði við nauðsynlegar fjárfestingar og hins vegar að efla samstarf Borgarskjalasafns og Þjóðskjalasafns með samnýtingu á húsnæði og innviðum.
Málið var til umfjöllunar á fundi borgarráðs í dag þar sem tillaga áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna var felld. Í henni fólst að borgarráð myndi fela Innri endurskoðun Reykjavíkur að yfirfara forsendur og kostnaðarmat þeirra þriggja sviðsmynda sem KPMG dregur upp í skýrslu sinni. Þá sé honum einnig falið að áhættugreina þessar ólíku sviðsmyndir og meta orðsporsáhættu verkefnisins með tilliti til undangengins verklags og afleiðinga af þeirri ákvörðun sem tekin er í tengslum við framtíð Borgarskjalasafns.
Tillaga borgarstjóra um að loka Borgarskjalasafni fékk mótatkvæði í borgarráði og því kemur hún til afgreiðslu borgarstjórnar á þriðjudag.
Líf fjallar um málið á Facebook síðu sinni þar sem hún segir framtíð allra héraðsskjalasafna landsins sett í uppnám sem og framtíð safnakosts Borgarskjalasafns og aðgengi að honum. Þá bendir hún á að uppi sé óvissa hvort ríkið geti og yfir höfuð vilji taka við skjölum Borgarskjalasafns.
„Það felast ríkir hagsmunir, öryggi og verðmæti í því að reka Borgarskjalasafn og einkum á tímum umfangsmikillar stafrænnar vegferðar sem borgin hefur hafið. Það er því algert óráð og gersamlega galið að loka því. Meirihlutinn hefur haldið illa á þessu máli og það kæmi mér ekki á óvart að hann eigi eftir að missa allt úr höndunum vegna þessarar misráðnu pólitísku afstöðu sinnar til skjala- og menningarmála borgarinnar. Þetta er ekkert nema tómlæti og skeytingarleysi til þeirrar merku lýðræðisstofnunar sem Borgarskjalasafn er,“ ritar Líf.