Bifreiðarnar voru mikið skemmdar eftir áreksturinn. Ökumaðurinn sem talinn er hafa valdið árekstrinum er grunaður um ölvun við akstur og var hann vistaður í fangaklefa eftir skoðun á slysadeild.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem farið er yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar.
Manni var komið til bjargar í Vesturbænum þar sem hann lá ósjálfbjarga á grasbala vegna ölvunar. Honum var ekið heim til sín. Tilkynnt var um líkamsárás á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur í nótt og var árásarmaðurinn handtekinn. Árásarþoli var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Tvö innbrot voru framin í nótt, annað í fyrirtæki í Árbænum og hitt í söluturn í Mosfellsbæ. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hversu miklu eða hverju var stolið.