Mbl sagði fyrst frá málinu en samningurinn gildir til tveggja ára. Áður höfðu flugvirkjarnir fellt samning til eins árs í febrúar.
„Þetta hafðist. Það er kominn samningur,“ sagði Grétar Guðmundsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, í samtali við fréttastofu.
Hann segir að í samningnum sé gert ráð fyrir hækkun launa í janúar næstkomandi sem taki mið af samningum annarra.
Samningar flugvirkja hjá GMT höfðu verið lausir í áratug en 2018 var samþykkt að þeir myndu fylgja aðalkjarasamningi Flugvirkjafélags Íslands sem þá var undirritaður.
Í nýja samningnum hafi náðst fram meiri hækkun orlofsuppbótar og fatapeninga en í samningnum sem var felldur í febrúar.